Jafnrétti er fyrir bestu

Jafnrétti

Markmið lagasetningar um feðraorlof er tvíþætt: að stuðla að aukinni þátttöku karla í ólaunðum störfum við umönnun barna og innan heimilisins og að að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði með því að auðvelda mæðrum að fara aftur út á vinnumarkað eftir fæðingu.

Lesa meira

 

Rannsóknir sýna að:

 

Mæðrum er enn stillt upp sem aðalumönnunaraðila á meðan feður eru í hlutverki aðstoðarmanns móður, samkvæmt greiningu á íslensku upplýsinga- og fræðsluefni. Íhaldsömum hugmyndum um tengslamyndun og hlutverk mæðra og feðra er þannig viðhaldið.


 

Konur sem ekki geta eða kjósa að vera með börn á brjósti geta verið smánaðar af samfélaginu. Brjóstagjöf er bæði algeng og álitin sjálfsögð á Íslandi og flestar mæður reyna brjóstagjöf sem fyrsta valkost. Fyrir þær konur sem geta ekki eða vilja ekki hafa börn sín á brjósti er hún engu að síður oft skilgreind sem ákveðinn mælikvarði á mæður, þar sem samfélagið, ættingjar og vinir jafnt sem ókunnugir geta dæmt og smánað mæður sem hafa börn sín ekki á brjósti.


 

Konur tóku á sig meiri skell en karlar í kjölfar bankahrunsins 2008. Þegar feður drógu úr töku fæðingarorlofs, þá brúuðu mæður bilið milli orlofs og dagvistar með lengri fjarveru frá vinnumarkaði.


 

Sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs er í dag aðallega nýttur af mæðrum. Vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2018 tóku 3.566 mæður sameiginlega réttinn í heild á meðan 222 feður tóku réttinn í heild. 133 foreldrar skiptu réttinum á milli sín. 


 

Reynslan sýnir að ef dregið er úr sjálfstæðum rétti feðra til fæðingarorlofs skerðir það orlofstöku feðra. Þegar réttur feðra til fæðingarorlofs var skertur í Noregi 2014 drógu feður umsvifalaust úr töku orlofs. Fjórum árum síðar var rétturinn aftur aukinn, orlofstaka feðra jókst á ný og hefur aldrei verið meiri en í dag.