Of löng fjarvera mæðra frá vinnumarkaði hefur mjög neikvæð áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði.
Auknar líkur eru á því að mæður fari aftur í fulla vinnu eftir að hafa eignast barn eftir tilkomu sjálfstæðs réttar feðra til töku fæðingarorlofs.
Skýr skipting fæðingarorlofs milli foreldra er styrkur fyrir feður í samningaviðræðum á vinnumarkaði. Ein rannsókn sýndi að 15% til 20% feðra á Íslandi fá neikvæð viðbrögð frá atvinnurekendum þegar þeir báðu um fæðingarorlof. Önnur rannsókn sýndi að launafólk er jákvæðara í garð fæðingarorlofs heldur en atvinnurekendur. Skýr lagalegur réttur feðra til fæðingarorlofs auðveldar feðrum að krefjast réttar síns á vinnumarkaði.
Feður sem eru á vinnumarkaði taka lengra fæðingarorlof ef tekjumissir er bættur að verulegu leyti, samfara fleiri dögum sem þeir hafa rétt á í fæðingarorlof, sýna rannsóknir. Feður sem eru utan vinnumarkaðs, svo sem atvinnulausir eða í námi, eru fjölmennastir í hópi þeirra feðra sem ekki taka leyfi.
Feður sem taka fæðingarorlof verja minni tíma í launaða vinnu utan heimilisins eftir að fæðingarorlofi lýkur.